Logitech Wave lyklaborð Review

Svara

Höfundur
Yank
</Snillingur>
Póstar: 1058
Skráði sig: Mið 29. Des 2004 17:01
Staðsetning: www.tech.is
Staða: Ótengdur

Logitech Wave lyklaborð Review

Póstur af Yank »

Þegar maður heyrir á tal tveggja tölvuáhugamanna fær maður það stundum á tilfinninguna að verið sé að tala um trúarbrögð en ekki hluti tengdum tölvum, slíkur er ofsinn og sannfæringin um ágæti þess búnaðar sem viðkomandi notar. Þetta á ekki síst við um jaðarbúnað eins og mýs og lyklaborð, en þar virðist vani oft ráða mestu. Efni þessarar greinar verður lyklaborð frá Logitech sem hefur þá sérstöðu að skera sig aðeins úr frá restinni sökum hönnunar.
>>>
Fyrir nokkrum árum fóru að sjást á markaði lyklaborð sem hönnuð voru með það í huga að vera sem þægilegust í notkun fyrir notanda. Margir kannast við að hafa séð slík lyklaborð, eða jafnvel notað, en þau hafa það sameiginlegt að vera hækkuð í miðjunni og mynda þannig nokkurskonar þríhyrning á þeim fleti sem takkarnir eru staðsettir. Þessi lyklaborð hafa þann ókost að vera ekki fyrir alla enda tekur nokkurn tíma að venjast þeim, og sumir ná því aldrei.

Mynd

Logitech Wave er lyklaborð hannað með það að leiðarljósi að skapa sem náttúrulegasta stöðu fyrir hendurnar og gera þannig áslátt á takka eins áreynslulausa og þægilega upplifun og hægt er . Það Logitech Wave lyklaborð sem hér er prófað er USB útgáfan, en það fæst einnig í þráðlausir útgáfu. Lyklaborðið prófað hér var lagt til af Logitech nordic division.
>>>
Aðeins um Logitech

Logitech er fyrirtæki sem ætti ekki að þurfa að kynna fyrir neinum áhugamanni um tölvubúnað, það verður því ekki eytt miklu púðri í það hér. Logitech sérhæfir sig í framleiðslu jaðarbúnaðs fyrir einstaklinga og fyrirtæki, með það í huga að einstaklingurinn njóti hins stafræna heims á sem þægilegastan máta. Dæmi um jaðarbúnað framleiddan af Logitech er: lyklaborð, mýs, hátalara, fjarstýringa, vefmyndavéla, o.s.frv. Fyrirtækið á sér langa sögu m.v. fyrirtæki í þessum geira, en það var stofnað í Sviss 1981. Logitech hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir nýjungar og hönnun og þykir leiðandi í hönnun og þróun jaðarbúnaðs.
Nánar um Logitech á http://www.logitech.com

Mynd
>>>
Kassi og fylgihlutir

Kassinn er klassískur og líkur öðrum kössum frá fyrirtækinu. Kassinn skartar íslenska fánanum enda með áþrykktum íslenskum stöfum. Kassinn skartar slagorðum eins og „Created for hands just like yours“ eða framleitt fyrir hendur eins og þínar. Að öðru leyti er kannski ekki mikið sem getur æst mann upp þegar kemur að kassa utan um lyklaborð.

Mynd
>>>
Nánar um Logitech Wave

Upplýsingar frá framleiðanda (lausleg þýðing Yank):

Mynd

Þægindi

Bylgjulagaðir takkar: Bylgjulagaðir takkar leggjast þægilega að fingrum þínum.

Stöðluð bylgjuleg hönnun: Bylgjuleg hönnun á lyklum og lyklaborðinu sjálfu tryggir náttúrulega og þægilega stöðu handa við áslátt án þess að lyklaborðið virki ókunnuglegt.

Þægilegur úlnliðsstuðningur: Mjúkur úlnliðsstuðningur tryggir þægilega og afslappaða stöðu.

Stillanleg hæð lyklaborðs: Notaðu fætur sem hægt er að stilla á þrjá vegu til þess að stilla hæð lyklaborðsins eftir þínum smekk.

Haganlegur frágangur leiðslna: Tryggðu að leiðslur músar eða heyrnartóla séu ekki að flækjast fyrir með því að leiða þá í gegnum til þess gerða ganga undir lyklaborðinu.

Mynd

Stjórnun og þægindi

Auðveld stjórnun á Windows Vista™: Stórir snertitakkar gefa þér auðvelda stjórnun á Windows Vista™ m.a. Flip 3D, Zoom, Photo Gallery, and Gadgets.

Mynd

Margmiðlunarstjórnun: Snertitakkar fyrir hljóðstillingu, ásamt sérstökum tökkum til þess að ræsa Media Center og Front Row.

Forritanlegir F-takkar: Ræstu uppáhalds forritið, leikin, opnaðu möppur eða uppáhalds vefsíðuna (http://www.tech.is :) ) með forritanlegu F-tökkunum.

Það sem sker Logitech Wave lyklaborðið frá fjöldanum er fyrst og fremst lögun þess, en það dregur nafn sitt af þessari lögun. Wave þýðir bylgja eða alda. Þessi sérstaka öldu (wave) lögun, úlnliðsstuðningur og mjúkir takkar sem gefa þessu lyklaborði þá eiginleika að vera mjög þægilegt í notkun. En þægileg heitin hætta ekki bara þarna. Það er klárt að mikil hugsun og þekking hefur farið í hönnun á þessu lyklaborði og staðsetning og lögun flýtitakka er til fyrirmyndar. Að auki gefa forritanlegu F-takkarnir fleiri möguleika en maður ætti að þurfi að nýta.

Bylgjulögun Logitech Wave er ekki það framandi að lyklaborðið virki ókunnuglegt frá upphafi, en smá tíma tekur að venjast löguninni. Það er alls ekki þannig að eftir að hafa vanist notkun Logitech Wave séu öll önnur hefðbundin lyklaborð ónothæf, manni finnst bara Logitech Wave þægilegast af þeim.

Mynd
>>>
Prófanir

Það er venjan hjá mér að taka niður punkta þegar ég prófa hluti, og hér eru þeir hráir eins og þeir voru skráðir.
Test Report

Lyktin af padinu er að drepa mig. Lyktar eins og nýr bíll eða eitthvað. Opnaði glugga til að lofta út.

Virkar strax eitthvað undarlega. Ásláttur frekar undarlegur í fyrstu. Sérstaklega erfitt að ná til sér íslenska stafa eins og ÖÖÖog ÐÐÐ.

Fyrstu kynni. Þetta er eitthvað sem þarf að venjast.

Daginn eftir var mest af lyktinni farið þannig að væri til mikils ama en hún loðaði samt við úlnliðinn.

Eftir nokkra daga er hún alveg horfin.

Þetta er ekki lyklaborð fyrir þá sem spila mikið af leikjum. Erfitt að ná í t.d. control enda legan á lyklum óhefðbundin.

Vá.... hvað er þægilegt að vélrita á þetta lyklaborð

>>>
Samantekt

Logitech Wave er þægilegasta og besta lyklaborð til innsláttar á texta sem ég hef kynnst. Það er vönduð smíði, vel hannað, og tiltölulega ódýrt lyklaborð, sem einnig er hægt að fá í þráðlausri útgáfu.

Ef dvelja á við neikvæða hluti við þetta uppáhalds lyklaborð mitt þessa daganna þá er það tvennt sem hægt er að fetta fingur út í:. Logitech Wave er ekki þægilegasta lyklaborð til leikjaspilunar sem ég hef prófað. Aðal ástæða þess er að staðsetning takka eins og Ctrl og þessara jaðartakka sem notaðir eru mikið í leikjum og þrýst er á með litlaputta, eru einhvern veginn á „vitlausum“ stað, eða öllu heldur of langt að ná til þeirra. Annað er að ef þú ert með litla lyklaborðs skúffu þá skaltu hafa í huga að Logitech Wave er fremur stórt lyklaborð og það þarfnast nokkurs pláss.

Þegar þú notar Logitech Wave í fyrsta skipti þá getur það virkað fráhrindandi, en eftir um klukkustundar notkun þá hverfur sú tilfinning alveg, og þú ferð að meta hversu þægilegt er að vinna með það.

Þessir þættir breyta ekki því að Logitech Wave er frábært lyklaborð sem tech.is mælir með. Sér í lagi ef þú ert notandi sem mikið er að slá inn texta, hvort sem það er heima eða í vinnunni.

Copyright Yank
Editor RISI
Svara