Afhverju nota þá löglegar þjónustur ekki allar BitTorrent?
Því miður hefur BitTorrent staðallinn verið notaður mikið af þeim vilja
hagnast af brotum á höfundavörðu efni. Þessi tenging er svo sterk í
hugum margra að flestir heiðarlegir aðilar vilja ekki bendla nafn sitt við
þessa tækni. Í raun er það ekkert óvenjulegt og þekkist víða í
viðskiptum, t.d. þá færi enginn að auglýsa barnamat í klámblaði þó
svo að lesandahópurinn gæti verið stór.
http://smais.is/hugverk/SM%C3%81%C3%8DS ... 0URHAL.pdf
Mér finnst þessi samanburður hjá Smáís vera ógeðfelldur.
En myndin sem mér langar í er ekki til á Íslandi?
Það má vel vera og er mjög algeng afsökun fyrir því að hafa „neyðst“
til að niðurhala í óþökk rétthafa. En ef skoðað er hvað er vinsælast að
niðurhala á síðum sem sérhæfa sig í að hlunnfara rétthafa, þá eru það
vinsælustu Hollywood myndirnar eða sjónvarpsþættir sem sýndir eru í
íslensku sjónvarpi. Það er í raun afar fátt efni inná þessum síðum, sem
er vinsælt, og er ekki hægt að nálgast hér heima eða erlendis frá með
löglegum hætti.
Að vissu leyti rétt, en þetta er aðeins hálfur sannleikurinn.
Löglegar dreifileiðir fyrir kvikmyndir á Íslandi eru mjög fáar. Stúdíóin viljandi takmarka úrval á VOD efni með allskonar "gluggum". Nýjustu kvikmyndirnar eru aðeins sýndar í 1-2 bíóhúsum í Reykjavík, sem gerir þær óaðgengilegar fyrir alla landsbyggðina, svo eru þeir sem bara vilja ekki fara í bíóhús. Aðgengi að kvikmyndaefni er ekki aðeins erfitt, heldur er úrvalið og tíminn þar til maður getur fengið að kaupa eða leigja myndina frá því hún kom út í Bandaríkjunum mjög langur.
Úrval sjónvarpsþátta í íslensku sjónvarpi er líka afskaplega takmarkað, svo eru þeir sýndir seint, ekki í háskerpu og ekki með 6 hljóðrásum. Á Bit Torrent getur þú sótt uppáhalds sjónvarpsþáttinn þinn sem er ekki sýndur í íslensku sjónvarpi, daginn eftir að hann er sýndir í BNA, í háskerpu og með 6 hljóðrásum. Þessu væri vel hægt að dreifa löglega alþjóðlega, jafnvel af íslenskum aðilum, og rukka fyrir hóflegt gjald, en það er ekki gert.
Það sem Smáís skautar framhjá hérna er að neysluvenjur fólks hafa breyst. Í dag vill fólk horfa á efni hvar sem er hvenær sem er, og það vill geta horft á efnið nánast um leið og það kemur út í BNA. Ekki á fyrirfram ákveðnum tíma sjónvarpsstöðvanna eða í fangelsum bíóhúsanna, heldur heima í stofunni þar sem 50" flatskjárinn er með 5.1 heimabíó.
Barátta SMÁÍS fyrir að menn fái greitt fyrir sína vinnu er réttmæt, en aðferðin er kolröng og hvernig SMÁÍS nálgast vandamálið ber vott um skilningsleysi og ákveðið vitsmunaþroskaleysi. Þeir þurfa að gjörbreyta hugsunarhætti sínum og hætta að hugsa um neytendur sem glæpamenn sem þarf að refsa og aga. Neysluvenjur fólks hafa breyst gríðarlega mikið með tilkomu internetsins og einkatölvunnar. Frekar en að leita leiða til að koma í veg fyrir þessar neysluvenjur ættu þeir frekar að skoða hvernig þeir geta stutt við þær, aukið löglegt aðgengi fólks að afþreyingarefni og jafnframt leitað leiða til að lækka kostnað á neyslu efnisins.
Kerfi þar sem hagsmunir neytandans eru ekki í forgangi mun á endanum ekki virka. Þó svo að höfundaréttur sé réttmætur þá er neytendaréttur það einnig. Microsoft var t.d. skipað að leyfa fólki að velja annan browser en Internet Explorer, valfrelsi neytandans skiptir miklu máli, og slíkt er haft í huga í öllum stórum dómsmálum þar deilt er um rétt manna að eigin verkum, t.d. rétt Microsoft að gera það sem þeir vilja við stýrikerfið sitt.
Hagsmunaárekstrar eru á milli ýmissa aðila hvað varðar dreifingu á afþreyingarefni, sjónvarpsstöðvar, vídjóleigur, bíóhús, kvikmyndastúdíóin, og svo afdankaðir innlendir tónlistarmenn á spenanum hjá Stef, o.fl. aðilar. Allir þessir aðilar reiða sig á ákveðið fyrirkomulag á dreifingu á afþreyingarefni, og barátta Smáís einkennist frekar að hagsmunavörslu fyrir þessa aðila, að viðhalda þessari gamalli úreldri dreifingarkeðju. Þegar neytandinn fer rakleitt framhjá þessari keðju þá koma aðilar einsog Smáís og benda á mikilvægi þess að neytandinn hlýði. Neytandinn mætir þarna afgangi, og frekar en þessi hagsmunaaðilar leitist við að þjóna neytandanum á þann hátt sem hann vill þá leitast þeir frekar að benda á hann sem sökudólg því hann kaupir ekki þjónustu af þeim.
Á endanum leitar neytandinn í það sem hann vill.