Síða 1 af 2

Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 21:48
af kiddi
Var að gramsa í gömlum backupdiskum og fann ýmsan fjársjóð, m.a. ýmislegt efni tengt því þegar og hvernig vaktin.is varð til. Mér datt í hug að það væri pottþétt einn, kannski tveir sem hefðu áhuga á þessu og svo eru eflaust enn fleiri sem hefðu gaman að því að sjá hverskonar græjum við vorum spenntir fyrir og hvað við vorum að borga fyrir þær, fyrir 12 árum síðan. Það er ekki víst að allar dagsetningar séu 100% réttar hjá mér og geng ég út frá creation date á þessum skjölum sem ég fann sem og ýmsu öðru svo aldrei að vita nema ég leiðrétti þetta síðar ef nánari upplýsingar kæmu í ljós #-o

Þetta byrjaði allt í júlí 2002 þegar ég sjálfur var að spá í uppfærslu fyrir sjálfan mig, ég hafði aðallega verið að versla við eina verslun á þeim tímapunkti sem hét isoft.is og útbjó ég þetta Excel skjal til að sjá hverskonar vél ég vildi og hvað hún myndi kosta mig:


Mynd


Út frá þessu skjali kviknaði svo þörf á því að stækka sjóndeildarhringinn aðeins, auk þess sem vinir mínir til margra ára Jakob, Guðjón(R), Sigurjón (kemiztry) og Ómar (Dári) voru líka spenntir yfir þessum pælingum, og úr varð þetta Excel skjal þann 27. júlí 2002:


Mynd


Eftir að hafa sent þetta á nokkra vinnufélaga og kunningja og fundið alveg gríðarlegan áhuga, var maður ekki lengi að rétta úr fingrunum og útbúa þetta, en þetta er í rauninni fyrsta formlega Verðvaktin, þann 29. júlí 2002:


Mynd


Mynd


Á þessum tímapunkti voru það bara ég og Jakob sem stóðum á bak við þetta, sem á þeim tíma var kerfisstjóri hjá Þekkingu, og gat skaffað hýsingu hratt og örugglega undir léninu http://verdvakt.xo.is" onclick="window.open(this.href);return false;.


Þetta bréf skrifaði ég svo sem ég áframsendi svo til allra verslana til þess að fá þær um borð og fá þær til að hjálpa til, ath. ég var bara 23 ára gamall þarna og hálfgerður krakki ennþá þegar ég skrifaði þetta:
Berist til verslunarstjóra, markaðsstjóra og jafnvel framkvæmdastjóra.
----------------------------------------------------------------------


http://verdvakt.xo.is" onclick="window.open(this.href);return false;


Tilgangur þessa vefs eru verðkannanir á tölvuverslunum á Íslandi.
Ekki endilega í þeim tilgangi að koma af stað verðstríði, heldur að
auðvelda neytendum að vera hagsýnir. Auðvitað eiga gæði og gott verð
ekki alltaf vel saman og tökum við það skýrt fram á vefnum, en að
sama skapi er þetta nauðsynlegt fyrir þá sem stýra kaupum sínum af
hagkvæmni, eða einfaldlega lítilli buddu.

Þessar verðkannanir eins og er, eru gerðar af okkur sem sjáum um
vefinn, á tveggja vikna fresti. En tilgangur þessa bréfs er bæði að
láta ykkur vita af þessari nýjung sem er komin til að vera, heldur
einnig að gefa ykkur færi á að rétta okkur hjálparhönd og á sama tíma
tryggja að verðbreytingar að ykkar hálfu komist strax til skila.

Þar af leiðandi tryggja ykkur meiri viðskipti. Vefurinn er og mun
alltaf verða óháður og hlutlaus í garð verslanna, því getur hann bæði
orðið verslunum til ama og til góðs. Það veltur á hversu oft viðkomandi
fyrirtæki uppfærir verðskrá og hvernig henni er komið til skila.

Hugmyndin kemur frá http://www.pricewatch.com" onclick="window.open(this.href);return false;, sem undirritaðir glugga
gjarnan í til að fylgjast með verðlækkunum hinum megin við sjóinn.
Okkur hefur þótt þetta nauðsynlegt hér vegna ýmissa ástæðna. Meðal
annars finnst okkur verðmunur milli verslanna stundum vera óeðlilegur,
verðlækkanir koma seint í kjölfar lækkana úti sem má líklegast rekja
til mikilla birgða, og stundum einfaldlega gleymist að lækka verð á
vörum sem njóta ekki mikillar athygli.

Á aðeins nokkrum dögum hefur þessi vefur fengið ótrúlega aðsókn og
góð ummæli frá þeim sem heimsækja hana. Því höfum við ákveðið að stefna
jafnvel enn hærra. Við ætlum að gera stórann, óháðann vef um tölvubúnað,
markað, þjónustu og hjálp hér á Íslandi og erum við þegar byrjaðir á
smíðum. Verðvaktin er aðeins fyrsta skrefið.

Við erum ekki að selja auglýsingar með þessu bréfi. Við erum að biðja
ykkur um stuðning svo við getum hjálpað ykkur, að hjálpa neytendum.

Það sem við viljum fá frá ykkur, er að þið kíkið á vefinn, sækið
Excel skjalið sem er boðið neðarlega á síðunni, fyllið út á þeim tíma
sem þið uppfærið ykkar verðlista og sendið svo til okkar. Með þessu móti
komast upplýsingarnar ykkar fyrr til skila, sem getur veitt ykkur betri
markaðsstöðu í kjölfarið.

Það eru engin fyrirtæki bakvið þetta framtak, því eru eingöngu hagsmunir
neytenda í húfi. Það kostar ekkert að taka þátt. :-)


Með bestu kveðjum og von um samstarf,

Kristján U. Kristjánsson - kiddi@xo.is
Jakob J. Sigurðsson - jakob@xo.is

En nú var maður alveg að springa úr spennu vegna þess hve margar heimsóknir þessi síða fékk strax á fyrstu dögum, svo ég hóaði í GuðjónR og Sigurjón (kemiztry) til að fá þá um borð og sjá hvað við gætum gert. Rúmri viku síðar var http://www.vaktin.is" onclick="window.open(this.href);return false; lénið keypt þar sem við lögðum allir í púkk fyrir kostnaðinum á léninu. Nokkrum vikum síðar fékk vaktin.is andlitslyftingu og spjall.vaktin.is varð til. Notandinn "Kerfisstjóri" er elsti skráði notandi spjallsins og var stofnaður af Jakob, sem sjálfur varð svo notandi #2, þann 28. ágúst 2002:


Mynd

Mynd


Nú vorum við fimm félagarnir (ég, Jakob, Guðjón, Sigurjón & Ómar) sveittir við að uppfæra öll verð handvirkt og komum til með að gera það í fjölda, fjölda ára í kjölfarið. Við fengum ófáar skammirnar frá notendum sem kvörtuðu ýmist yfir að það vantaði vissa vöru á listann eða vegna þess að við vorum ekki nógu duglegir að uppfæra, meðan sumir sendu þakkarpóst og jafnvel vildu ráðleggingar um hvaða íhluti skyldi velja. Sömuleiðis urðu margar búðirnar alveg bandbrjálaðar út í okkur og aðrar mjög ánægðar. Einhverjar líkur eru á því að sumar tölvubúðirnar sem spruttu upp í kjölfar stofnun vefsins áttu velgengni sinni og/eða falli, Vaktinni að þakka/kenna, því nú var auðveldara en aldrei fyrr að koma sér á kortið. Nokkur verðstríð mynduðust á milli vissra verslana og með þeim fylgdi gríðarmikill hiti og spenna, og á einum tímapunkti stóðum við frammi fyrir kæru til Samkeppniseftirlitsins (sem varð svo ekkert úr, okkur grunaði að Samkeppniseftirlitið hafi bara verið að fíla það sem við vorum að gera). Í apríl 2004 var svo fyrsta gagnagrunnstengda útgáfan af Verðvaktinni komin í loftið, en hún var einmitt kóðuð af okkar eigin appel sem hefur nokkurnveginn séð um gagnagrunninn alfarið síðan, en það er einmitt ekki mjög langt síðan að vefurinn varð sjálfbær að því leiti að hann uppfærir sig sjálfur tvisvar á dag. Það eina sem þarf að gera handvirkt er að setja inn nýjar vörur/flokka og fylgjast með eftir villum þegar vefurinn samkeyrir sig við búðirnar.

Samstarfið hjá okkur félögunum gekk pínu upp og ofan á þeim árum sem eftir komu, við höfðum mismunandi skoðanir á því hvernig viss vandamál yrðu tækluð (og þau sko voru mörg, pólitísk vandamálin sem við þurftum að díla við gagnvart verslunum, þið mynduð ekki trúa því !!), sem og áhuginn hjá öðrum dvínaði. Svo árið 2008 keypti GuðjónR okkur hina út, þó ég hafi sjálfur haldið áfram að vera honum innan handar með kerfisstjórnun, hönnun og verið með í ráðum í nokkur ár á eftir.

Í dag er heimsóknartíðnin á vaktin.is um 6.000 á dag og vinsældir vefsins hafa haldist stöðugar undanfarin 12 ár, og samfélagið orðið moldríkt af fróðleik og reynslu, eins er samfélagið orðið mjög náið eins og sannaðist núna um daginn þegar GuðjónR stóð fyrir söfnuninni.

Ég læt þetta duga í bili en ætla að láta nokkrar myndir og skjáskot fylgja hér að neðan:

Vaktin.is var ekki lengi að vekja athygli á sér:


Mynd


Mynd


Mynd


Mynd


Mynd


Mynd



Fyrsta sjálfstæða server vélin okkar, ef ég man rétt þá var þetta Pentium III 600mhz, sennilega árið 2003:


Mynd


Svona leit vaktin.is út árið 2004:


Mynd


Svona leit vaktin.is út árið 2005 (já ég veit, glænýjir bannerar á þessu skjáskoti, er að notast við archive.org):


Mynd


Stutt viðtal tekið við mig árið 2008:


Mynd


Og endilega bætið við þennan þráð ef þið munið eftir einhverju skemmtilegu sem ykkur finnst að ætti heima í þessum þræði, og líka ef það eru einhverjar spurningar.

Takk fyrir að lesa, ef þið entust alla leið hingað \:D/

EDIT: Eftir á að hyggja virkar þessi samantekt ofboðslega fátækleg miðað við það sem raunverulega gekk á, það vantar ótrúlega margt inn í þetta, til dæmis sá kafli þegar við félagarnir tókum við rekstri tilveran.is og rákum hana undir sama væng og Vaktina, en þetta fer vonandi að rifjast upp fyrir mér og þá bæti ég meiru við :)

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:03
af Jakob
Awesome vinna Kiddi, virkilega gaman að sjá þetta :) *high-five*

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:04
af Klaufi
Þetta er sennilega besti þráður sem ég hef lesið lengi..

Það sem stendur uppi er leit.is myndin, sem er það sem ég sá 2004 þegar ég var í skíðaferð á akureyri hjá systur minni að leita að tölvu til sölu..

Ég ætla að brjóta persónulega reglu og gera þetta: #Flashback

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:06
af GuðjónR
Kobbi!!! Long time no C!!!
Já þetta er flott já kidda :)

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:18
af depill
Til hamingju með þennan árangur. Ekkert smá sem þið lögðuð á ykkur. Hlýtur að fara koma tími á Vaktarbjórkvöld !

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:22
af Klaufi
depill skrifaði:Til hamingju með þennan árangur. Ekkert smá sem þið lögðuð á ykkur. Hlýtur að fara koma tími á Vaktarbjórkvöld !
Löngu kominn tími á það..

Skal borga einn kút.. :lol:

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:33
af kiddi
Takk strákar :) Reyndar eitt sem mér dettur í hug, það væri rosa gaman að fá "insider info" úr einhverri tölvuverslun og hvernig Vaktin.is kom við sögu þar og hafði áhrif (eða ekki), ég lofa fullum trúnaði ef einhver fyrrv. starfsmaður einhverrar verslunarinnar vill koma einhverju fyndnu eða skemmtilegu á framfæri 8-)

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:42
af SolidFeather
Varð "dramað" árið 2008 til þess að tech.is var stofnuð? Eða hét hún það ekki?

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 22:51
af Daz
Takk fyrir þessa söguyfirferð, alltaf gaman að svona net nostalgíu. Ekki þakka ég síður fyrir að hafa komið þessari síðu af stað, mikið sem ég hef notað hana, bæði fyrir verðvaktina og svo spjallið. Ekki síst söluspjallið.

En ég set :happy á vaktarbjórkvöld, við fórnum okkur bara í að drekka bjórinn fyrir GuðjónR.

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 23:17
af Jakob
Kobbi!!! Long time no C!!!
Sömuleiðis Guðjón :)

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Fös 12. Des 2014 23:44
af Lunesta
Skemmtilegur lestur, væri ekki hægt ef sagan verður nógu löng, að gera link inná síðunni sem er einfaldlega "saga vaktarinnar"..
bara svona for fun?

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Lau 13. Des 2014 01:16
af appel
Kúl :)

Ótrúlegur metnaðurinn við að uppfæra verðinn, HANDVIRKT, í öll þessi ár..

Vaktin er líklega elsti verð-samanburðar-vefur á Íslandi. Það hafa nokkrir komið, bensínverð og svona, en alltaf horfið eftir smá tíma. Það þarf nefnilega metnaðarfullt samfélag til að halda svona lifandi.

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Lau 13. Des 2014 01:47
af Sallarólegur
Fallegur vefur, sem er fallega rekinn :happy
Til hamingju með árangurinn.

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Lau 13. Des 2014 11:57
af JohnnyX
Mögnuð saga! :fly

Aldrei hefði ég nennt því að uppfæra þetta allt handvirkt :catgotmyballs

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Lau 13. Des 2014 14:01
af Minuz1
Snillingar!

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Lau 13. Des 2014 14:28
af Scavenger
Frábært! Gaman að lesa þetta :happy það ætti að gera þetta sticky og uppfæra reglulega! :happy

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Lau 20. Des 2014 22:16
af pattzi
Frábært

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Mán 16. Feb 2015 00:17
af DJOli
Æðislegt að sjá hvernig síðan varð til. Ég hafði einmitt nokkrum sinnum velt þessu aðeins fyrir mér, en aldrei beinlínis þorað að spyrja.
Held að ég hafi fyrst komið hingað þegar menn voru hástöfum að ræða agp 2x, 4x og 8x, og hvernig pci express 16x yrði.

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Lau 28. Feb 2015 14:08
af alexone
:happy

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Sun 08. Mar 2015 20:27
af Stuffz
Skemmtilegt yfirlit

mér fannst mest forvitnilegt hvaða pólitík það var sem kom rekstri vefjarins við, og hverjir það voru eiginlega sem kvörtuðu í samkeppniseftirlitið yfir síðu sem er beinlínis að virka hvetjandi á samkeppni en ekki öfugt.

Ég held að allir sem láta gott af sér leiða eiga sér hauk í horni og öfugt.

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Sun 08. Mar 2015 23:00
af appel
Ég held að allar verslanir sem eru að selja neytendavöru eigi að vera skyldugar að veita öllum aðilum aðgang að verðlistum á aðgengilegu formati, svo hægt sé að gera verðsamanburð sem hæfir 21. öldinni.

Þetta á sérstaklega við matvöruverslanir, þar sem öll þessi gögn eru til í tölvukerfum, en verslanirnar vilja ekki veita ytri aðilum aðgang að þessu. Þekkt er að verslanir hendi út fólki sem er að tjékka á verðum hjá þeim. Er þetta svona mikið leyndó?

Vaktin þurfti að ganga á eldsteinum til þess að halda úti svona verðum, sumum verslunum var alveg meinilla við þetta.

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Sun 08. Mar 2015 23:36
af kiddi
Ég verð reyndar að viðurkenna að ég skil pínulítið sjónarmið margra verslananna sem vildu loka okkur á sínum tíma, svona eftir á að hyggja. Það eru nokkrir flokkar á Verðvaktinni sem gera t.d. ekki greinarmun á milli framleiðanda, það er t.d ekki sanngjarnt endilega að bera saman krónuverð Kingston vinnsluminni á móti Mushkin vinnsluminni, eða bera saman krónuverð á standard útgáfu af 980 GTX skjákorti vs. breyttri útgáfu sem er kannski overclockuð frá framleiðanda. Sömuleiðis er þjónustustig verslananna mjög ólíkt, sumar hafa enga yfirbyggingu með lítilli eða engri þjónustu og jafnvel biðtíma (vara ekki til á lager), meðan aðrar eru með frábæra þjónustu og engan biðtíma (vara til á lager). Þessi verðsamanburður er s.s. ekki alveg svarthvítur, en það hjálpar að hafa svona viðmiðunarlista þegar maður er að reyna að átta sig á hlutunum :) Persónulega elti ég aldrei lægsta verðið til að byrja með, hvort sem það er tölvudót eða eitthvað annað, heldur vel ég það fyrirtæki sem mér finnst veita mér besta þjónustu, og oftast, ef ég sýni versluninni tryggð og versla oft, þá enda ég á að borga allra lægsta verðið þar.

Og já, mér finnst algjörlega ólíðandi ef verslanir eru ekki með verðlista á netinu í dag. Ég vil alltaf gera smá "window shopping" heima áður en ég legg af stað út, og þær búðir sem eru ekki með góðar vefsíður með uppfærðum verðlistum eru nánast aldrei á mínum leiðarenda.

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Sun 11. Okt 2015 23:39
af rapport
vaktin.PNG
vaktin.PNG (2.19 KiB) Skoðað 7137 sinnum
Sumu hendir maður bara ekki úr pósthólfinu...

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Sun 11. Okt 2015 23:56
af davidsb
Fékkstu Username og Password í plaintext eins og ég? :)

date: Thu, Feb 28, 2008 at 10:44 PM
subject: Velkomin(n) á spjall.vaktin.is

Re: Upphaf vaktin.is

Sent: Mán 12. Okt 2015 01:20
af rapport
davidsb skrifaði:Fékkstu Username og Password í plaintext eins og ég? :)

date: Thu, Feb 28, 2008 at 10:44 PM
subject: Velkomin(n) á spjall.vaktin.is
lol - já...