Appel:
"Finnst svona hugsun frekar bera vott um fáfræði frekar en hitt. Þú skilur ekki viðskiptamódelin sem liggja á baki, og þú skilur heldur ekki hugtakið "eignarréttur", og telur aðeins að áþreifanlegir hlutir falli undir það."
Ég skil viðskiptamódelin vel eins og ég skil viðskiptamódel sem í denn byggðust á mercantalisma og verndunarstefnu, alveg eins og ég skil viðskiptamódel íslensks landbúnaðar sem byggir á verndartollum og niðurgreiðslum. Ég skil líka vel hugtakið eignarréttur og einmitt þess vegna veit ég að efnislegur og huglægur eignarréttur er ekki sami hluturinn og að eignarréttur á efnislegum hlutum er nauðsynlegur þar sem þeir eru takmarkaðir svo að aðeins takmarkaður fjöldi getur notað viðkomandi hlut á sama tíma á meðan að huglægir hlutir eru ótakmarkaðir og því geta óendanlega margir notið þeirra án þess að takmarka getu annara til þess. Þetta eru því ólíkir hlutir og ekki hægt að nota rökrétta réttlætingu annars til að réttlæta hinn heldur verður að byggja sjálfstæðan grunn fyrir hugverkarétti og ég vil meina að slík rökrétt réttlæting sé ekki til staðar.
"Þó það komi ný tækni þá þýðir það ekkert að það megi bara arðræna aðra með henni, og kalla það réttlætanlegt bara útaf því veist.. "tækni". Það eru engin rök."
Ljósaperuframleiðendur máttu "arðræna" kertagerðarmenn, bílaverksmiðjur máttu "arðræna" hestakerrusmiði, Apple mátti "arðræna" Ericson og Nokia o.s.fv.. Þú hefur ekki rétt á að græða, en þú hefur allan rétt á að reyna að græða svo fremi sem þú sviptir ekki aðra sama rétti svo einfalt er það. Ef að það að þú fjölfaldaðir eintak í þinni eigu gerði það að verkum að upprunalegur höfundur gæti ekki fjölfaldað sitt þá myndi ég standa þér við hlið og kalla slíkan verknað forkastanlegt brot á eignarrétti. En það virkar ekki þannig sem betur fer.
"Það að segja að það sé ekki hægt að stela neinu nema áþreifanlegu sem er þá tekið af viðkomandi, það er svona einsog að segja að það sé alltílagi að setja bíl í pressu og segja að það sé sami bíllinn, allt sé enn þarna til staðar en bara í öðru formi! Eða skvetta málningu á monu lisu, málverkið sé enn þarna undið, ekki búið að taka neitt, bara bæta á!!"
Þetta er brandari, er það ekki?
Þú vist að þú sviptir mig notkunnarmöguleika á bílnum þegar þú gerir þetta. Þú sviptir mig Monu Lisu, þó þú látir mig hafa Monu Lisu + málningu. Þú takmarkar notkun mína á minni efnislegu eign. Þú takmarkar hins vegar ekki notkun neins með fjölföldun á efni, þar liggur munurinn og hann er grundvallarmunur.
"Þinn skilningur á "eignaréttur" virðist takmarkast við "hluturinn er þarna, hluturinn er ekki þarna lengur". 1 og 0, en skilur ekki að það eru til allskonar eigindi tengd eignarrétti og allskonar eignir sem þurfa ekki að vera áþreifanlegar."
Ef það er þinn skilningur á því sem ég er að segja þá leiðréttist hann hér með. Eignarréttur byggist á því að handhafi hans er sá eini sem hefur rétt á að stjórna notkun þeirrar efnislegu eignar sem hann vísar til. Hann getur lánað hlutinn, veitt öðrum aðgang að honum en ef einhver notar hlutinn í óleyfi þá er það brot enda er eigandinn sviptur notkunarmöguleikanum á meðan.
Sallarólegur:
"Hvurslags barnaskapur er þetta að fullorðið fólk tali svona. Það er búið að setja margar milljónir í að framleiða eitthvað efni og komið að því að selja það til að fjárfestingin skili einhverju til baka. Þá kemur einhver gaur úti í bæ og dreifir efninu frítt. Ætlast fólk í alvörunni til þess að það sé ekkert gert í þessu?
Það að ég eyði milljónum í eitthvað þýðir ekki sjálfkrafa að fjárfestingin skili sér til baka. Ég get t.d. eytt milljónum í að koma mér upp verksmiðju á Íslandi bara til þess að einhverjir Kínverjar undirbjóði mig og ég tapi allri fjárfestingunni. Það sem gerir framleiðslu hugverks sem er fjölfaldanlegt erfiðara dæmi er að framleiðslukostnaður frumeintaksins er gríðarlegur en framleiðsla hvers eintaks fyrir sig eftir það er nær ókeypis. Þannig snýst gróðavon upprunalegs framleiðanda um að takmarka aðgengi að eintökum og binda þá sem hafa slík eintök undir höndunum með samningum sem þeir gangast undir. Þau eintök sem kvikmyndahús fá eru t.d. með gríðarlegum afritunarvörnum og kvikmyndahúsin eru samningsbundin og skaðabótaskyld. Það eru þessir samningar og afritunarvarnir sem tryggja kvikmyndaframleiðendum bróðurparti gróða þeirra en ekki höfundarréttarlög.
"Það er ekki verið að dæma hann fyrir að hafa tapað X mörgum sölum fyrir rétthafann. Það stendur skýrt í dómnum að brotið varðaði talverða fjárhagslega hagsmuni rétthafa. Ef fólk skilur ekki að þetta eru hagsmunir rétthafa að það sé ekki verið að dreifa, frítt, efni sem kostaði margra mánaða vinnu og milljónir í fjárfestingum - þá er því ekki við bjargandi."
Fjárhagslegir hagsmunir geta verið allskonar, útflutningsaðili hefur t.d. fjárhagslega hagsmuni af því að gengið lækki eða að framboð á vörum í hans grein minnki eða að aðrir séu að undirbjóða hann. Við leyfum honum þó ekki að fangelsa fólk til að þjóna þessum hagsmunum þó hann hafi kostað til margra mánaða vinnu og milljónum í fjárfestingum. En kannski er okkur "ekki við bjargandi".
Vilezhout
"Segjum að það yrði brotist inn í Kísildal sem virðist vera gegnumgangandi þema og málið fer fyrir dóm, þegar þangað er komið heldur lögfræðingur sakbornings því fram að tjónið sé x krónur en ekki y vegna þess að Kísildalur var aldrei að fara að selja AMD örgjörva því þeir eru úreltir og verðminni."
Staðreyndin er að ef ég set of háan verðmiða á tjónið þá mun lögfræðingur viðkomandi reyna að sýna fram á það að um ósanngjarna verðlagningu sé að ræða, þetta er því alveg réttmæt vörn til lækkunar refsingar. En ég get samt sýnt óyggjandi fram á raunverulegt tjón.
"Á örmarkaði einsog Íslandi eiga menn að sjá sóma sinn í því að vera ekki að dreifa svona efni því það er til endalaust af fríu efni til að horfa á, en ef að menn komast ekki af án þess að horfa á Biggest Loser að þá geta þeir verslað sér áskrift.
Alveg sammála, þó ég tali á móti höfundarréttarlögum þá er ég á því að fólk sem vill njóta listar verður að átta sig á að það er ábyrgt fyrir fjármögnun hennar. Það er því undir okkur komið að sjá til þess að þeir sem framleiða efni sem okkur líkar við geti haldið því áfram. Þegar um lítin markað eins og Ísland er að ræða þá er þessi ábyrgð meiri þar sem við erum stærri hluti af væntanlegum kúnnahóp. Það eru mýmargar aðferðir til þess og það er viss ábyrgð framleiðenda efnis að hafa þær sem fjölbreyttastar til að sem flestir sjái sér fært að styðja þá.
Hins vegar er ég frekar á því að við eigum að skamma viðkomandi og dissa heldur en að dæma hann sem einhvern glæpamann og því síður að kasta honum í grjótið eins og sá harðasti hérna stakk upp á. Ég tel það hvorki til þess fallið að auka greiðsluvilja fólks og stuðning við greinina né til þess fallið að fæla fólk í burtu frá því að dreyfa höfundarréttarvörðu efni þó menn muni passa sig betur í framtíðinni. Það er einfaldlega ekki siðferðilegur jöfnuður milli þess að brjóta á efnislegum eignarrétti og að brjóta gegn höfundarrétti.
Hér að endingu vil ég bjóða mönnum að kynna sér málið frá annari hlið en þeir hafa hingað til. Hér fjallar hugverkaréttarlögfræðingurinn Stephan Kinsella um nýja sýn á þessi mál:
https://www.youtube.com/watch?v=oRqsdSARrgk